Authors: Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson

Laufblöðum, aldinum og fræjum sem tilheyra ættkvíslinni beyki (Fagus) hefur verið lýst úr þremur setlagasyrpum á Vestfjörðum. Í fyrsta lagi úr Selárdals–Botns setlagasyrpunni, en hún er talin um 15 milljón ára, þá úr Dufansdals–Ketilseyrar setlagasyrpunni, sem er líklegast um 13,5 milljón ára, og loks úr Skarðsstrandar–Mókollsdals setlagasyrpunni sem er 9–8 milljón ára gömul. Beykileifar úr íslenskum jarðlögum hafa verið greindar til 6–7 mismunandi tegunda og hefur sú greining að mestu leyti verið gerð á blöðum eða blaðförum. Laufblöð, aldin og fræ, sem fjallað verður um í greininni, fundust öll í þessum þremur jarðlagasyrpum. Rannsakaðar voru plöntuleifar úr setlögum í Þórishlíðarfjalli í Selárdal (15 millj. ára), Botni í Súgandafirði (15 millj. ára), fjallinu Töflu ofan Ketilseyrar í Dýrafirði (13,5 millj. ára) og Hrútagili í Mókollsdal (9–8 millj. ára). Auk aldina og fræja, sem voru rannsökuð úr ofangreindum jarðlagasyrpum, var einnig stuðst við frjógreiningar úr nær öllum setlagasyrpum Vestfjarða og Vesturlands á aldursbilinu 15–6 milljón ára. Með því teljum við að fáist betri hugmynd um þátt beykis í gróðurfarssögu landsins en áður hefur fengist. Út frá formfræðilegum einkennum blaða, aldina og fræja, og þegar tekið er tillit til þess hvenær beykifrjókorn koma inn í setlögin og hverfa þaðan, teljum við að unnt sé að komast að því hvort beykileifarnar tilheyri allar sömu tegund eða hvort um sé að ræða tvær eða fleiri tegundir. Með hjálp steingervinga var ætlunin að fá heildaryfirlit yfir hlut beykis í tertíerflóru landsins og fá úr því skorið hvenær það var áberandi og ráðandi í flórunni. Þar að auki var reynt að komast að niðurstöðu um það hvaða útdauðar og núlifandi beykitegundir sýna mestan skyldleika við steingerðu beykileifarnar frá Íslandi. Í því sambandi er ekki síst áhugavert að rannsaka hvort þær sýni nánari skyldleika við útdauðar eða núlifandi tegundir í Evrópu eða Norður-Ameríku. Slík rannsókn gæti hugsanlega gefið okkur upplýsingar um flutningsleiðir beykitegunda til Íslands á mismunandi tímum á síðtertíer og varpað ljósi á þær loftslagsbreytingar sem urðu þess valdandi að sumar tegundir komu inn í íslenska síðtertíerflóru meðan aðrar hurfu þaðan.

PDF  Resources  Link