Authors: Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Walter L. Friedrich

Vel varðveittar plöntuleifar hafa fundist allvíða í íslenskum setlögum og má þar nefna trjáboli, greinar, barrnálar, laufblöð, köngla, rekla, aldin, fræ, gró og frjókorn. Mest ber á laufblöðum og hefur þeim verið lýst allt frá því að Ferðabók Eggerts Ólafssonar um ferðir hans og Bjarna Pálssonar kom fyrst út árið 1772. Ennfremur má nefna stuttaralega lýsingu á laufblöðum í Ferðabók Skotans Ebenesers Hendersons frá árinu 1818 og allítarlega lýsingu á íslenskum tertíerplöntum eftir Svisslendinginn Oswald Heer frá árinu 1868. Oft getur verið erfitt að bera kennsl á ættkvísl eða jafnvel ætt, hvað þá tegund, ef eingöngu er laufblöðum til að dreifa, því að útlitseinkenni laufblaða eru oft mjög svipuð hjá skyldum hópum. Hins vegar auðveldar það mjög greiningu til ættkvísla og tegunda ef t.d. aldin og fræ finnast með laufblöðunum. Fræ eru með tilliti til stærðar, lögunar, yfirborðsáferðar og innri gerðar mjög fjölbreytileg, en innan sömu tegundar er breytileikinn í raun mjög lítill. Fræ náskyldra tegunda eru því oft mjög lík og oft má sjá svipuð eða nær sömu einkenni hjá tegundum innan sömu ættkvíslar. Komið hefur í ljós að hér á landi hefur fundist óvenjumikið af stórvöxnum fræjum og aldinum í síðtertíerum setlögum á Vestfjörðum og Vesturlandi. Aldinin sem hér um ræðir eru af álmi, vænghnotu og hlyn, þau eru öll vængjuð (samara), þ.e. fræið er fast við væng eða vængi sem hjálpa til við dreifingu þess frá móðurplöntunni. Þessum stóru aldinum verður lýst hér ásamt laufblöðum sem talin eru tilheyra sömu tegundum. Þá verður reynt að rekja jarðsögu fræja og aldina dulfrævinga og leitað skýringa á því af hverju svo margar lítt skyldar plöntutegundir mynduðu nánast risaaldin hér á landi á síðtertíer, fyrir 12 til 6 milljón árum.

Resources Link